Innlent

Formlega boðað til kosninga 25. apríl

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra las upp forsetabréf við upphaf þingfundar í dag þar sem tilkynnt var um þingrof og kosningar þann 25. apríl næstkomandi. Enn er þó allt á huldu um hvenær þingfundum verður hætt enda hafi stjórnmálaflokkarnir ekki náð samkomulagi um það. Jóhanna sagðist leggja mikla áherslu á að öll brýn mál þurfi að afgreiða áður en þingi verði frestað.

Boðun kosninga þýðir að nú verði hægt að hefja undirbúning kosninganna, hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu og leggja fram kjörskrá.

Jóhanna sagði einnig að formönnum stjórnmálaflokkanna hafi verið kynntur listi yfir þau mál sem enn er ólokið. Í máli Jóhönnu kom ennfremur fram að hingað til hafi skemmst liðið einn mánuður frá því að þingfundum hafi verið frestað og til kjördags.

Geir Haarde formaður sjálfstæðismanna sagðist ekki gera athugasemd við ákvörðun um þingrof en hann gagnrýndi það hinsvegar að þingmönnum sé ætlað að starfa áfram á þingfundum vikum saman eftir að boðað hafi verið til þingrofs. Þetta taldi Geir óeðlilegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×