Innlent

Franklín Steiner tapaði í Hæstarétti

Sigurjón M. Egilsson, fyrrum ritstjóri Blaðsins.
Sigurjón M. Egilsson, fyrrum ritstjóri Blaðsins.

Sigurjón M. Egilsson fyrrum ritstjóri Blaðsins og Trausti Hafsteinsson blaðamaður voru sýknaðir í Hæstarétti í dag. Franklín Stiner, betur þekktur sem Franklín Steiner, stefndi þeim fyrir ummæli sem féllu um hann í Blaðinu árið 2006. Þar var hann meðal annars sagður mesti fíkniefnasali landsins og að allt hefði verið vaðandi í fíkniefnum á heimili hans. Héraðsdómur hafði áður sýknað þá félaga og ákvað Hæstiréttur að sá dómur stæði óraskaður.

Franklín var ennfremur dæmdur til þess að greiða þeim Sigurjóni og Trausta hvorum um sig 200 þúsund krónur til þess að standa straum af málskostnaði fyrir Hæstarétti.

Franklín fór fram á að fjöldi ummæla í Blaðinu yrðu dæmd dauð og ómerk. Þau ummæli má sjá hér fyrir neðan fréttina.

Hæstiréttur féllst hinsvegar á niðurstöðu héraðsdóms þar sem kom fram að Franklín hafi byggt mál sitt á því að ljóst sé að ummælin séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.

Þar segir hinsvegar að öll þau ummæli sem krafist sé ómerkingar lúti að því með einum eða öðrum hætti að Franklín hafi haft vörslur fíkniefna og selt þau og verið umsvifamikill í þeirri sölu. Ummælin snúa öll að atvikum sem gerðust fyrir um áratug og þau vísa öll til Franklíns í þátíð. Sum ummælanna eru sama efnis og birtust um stefnanda í afar ítarlegri grein í tímaritinu Mannlíf árið 1997.

Þá sé að finna í dómasafni Hæstaréttar dóma, þar sem stefnandi er dæmdur til þungrar fangelsisvistar, vegna ítrekaðs brots á fíkniefnalöggjöfinni, þar á meðal sölu fíkniefna.

„Því sé ekki unnt að fallast á að ummælin séu hreinn uppspuni og tilhæfulaus. Þá er ekki unnt að fallast á að ummæli stefndu séu óviðurkvæmileg og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, þegar fyrir liggur hvaða ímynd hann skapaði sér sjálfur með háttsemi þeirri sem hann hefur verið margdæmdur fyrir," sagði í dómi héraðsdóms.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×