Innlent

Ríkislögreglustjóri vill sex lögreglustjóra á landinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hugmyndir ríkislögreglustjóra eru að sumu leyti frábrugnar hugmyndum ráðherra. Mynd/ E. Ól.
Hugmyndir ríkislögreglustjóra eru að sumu leyti frábrugnar hugmyndum ráðherra. Mynd/ E. Ól.
„Ég get tekið undir þá skoðun að nýframkomin hugmynd þriggja manna starfshóps dómsmálaráðherra um einn lögreglustjóra yfir landinu öllu er afar róttæk, segir Haraldur Jóhannessen ríkislögreglustjóri við fyrirspurn Vísis. Dómsmálaráðherra kynnti hugmynd starfshópsins fyrir lögreglustjórum í síðustu viku.

„Embætti ríkislögreglustjóra hefur sett fram þá hugmynd að lögregluumdæmin verði stækkuð frá því sem nú er og verði 6 talsins undir stjórn lögreglustjóra hvers umdæmis. Einnig að sérstakur lögreglustjóri fari með rannsóknarlögreglu á landsvísu. Þetta fyrirkomulag yrði undir umsjón ríkislögreglustjóra og rúmast ágætlega innan núverandi fyrirkomulags lögreglumála og tekur mið af þeim fjárhagsvanda sem við er að etja. Verkefni gætu færst frá embætti ríkislögreglustjóra til lögregluumdæma eftir því sem hagkvæmt þykir hverju sinni," segir Haraldur.

Haraldur segir hins vegar rétt að vekja athygli á því að endanleg ákvörðun um framtíðarskipulag lögreglumála liggi ekki fyrir og mikil vinna sé framundan í þeim efnum. „Embætti ríkislögreglustjóra vinnur nú fyrir ráðherra að skilgreiningu á grunnþjónustu lögreglunnar sem unnt er að nota sem grundvöll að ákvörðun um inntak lögreglustarfsins, áætlun um mannaflaþörf í lögregluumdæmum og fleira," segir Haraldur.




Tengdar fréttir

Vill fækka lögreglustjórum í einn

Til stendur að lögregluumdæmi landsins verði stækkuð frá því sem nú er og verði 6-8 talsins, og starfi þau undir forystu umdæmisstjóra. Ráðgert er að þeir verði undir stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu, sem yrði nýtt embætti. Þannig verði lögregluembættin í landinu sameinuð í eitt lögreglulið. Þetta er á meðal tillagna sem Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti fyrir lögreglustjórum og stjórn Landssambands lögreglumanna í dag. Hafinn er undirbúningur að þessu breytta skipulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×