Innlent

Íkveikjan á Litla-Hrauni litin alvarlegum augum

Fangi á Litla-Hrauni reyndi að slökkva eld sem hann hafði sjálfur kveikt í klefa sínum í gærkvöldi með djús og gítar. Brotið er litið alvarlegum augum og var fanginn settur í einangrun. Agabrot í fangelsinu á Litla-Hrauni voru hátt á annað hundrað á síðasta ári.

Fregnir af eldsvoða á Litla-Hrauni í gærkvöldi urðu þess valdandi að áhyggjufullir aðstandendur fanga hringdu í forstöðumann langt fram eftir nóttu og óttuðust hið versta. Reyndin var hins vegar sú að vegna eineltismáls sem kom upp á einum ganginum voru fimm fangar lokaðir inni fyrr en vanalega og kveikti einn þeirra í ruslafötu í mótmælaskyni. Klefinn hans fylltist af reyk og reyndi hann sjálfur að slökkva eldinn með takmörkuðum árangri.

,,Kannski hefur átt að vera uppátæki sem ekki átti að fara svona langt, en það gerði það. En það var brugðist strax við og mjög litlar skemmdir. Enginn sem bar skaða af þessu. En alvarlegt að eldur sé kveiktur í húsnæði eins og þessu þar sem menn eru innilokaðir í klefum," segir Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður á Litla-Hrauni.

Viðbrögð starfsfólk eru sögð hafa verið kórrétt, þó komu slökkvilið og lögregla á vettvang í öryggisskyni. Litið er á málið sem alvarlegt agabrot og fer lögreglan á Selfossi með rannsókn þess. Agabrot, einkum vegna fíkniefnamála, eineltis og ofbeldis eða hótana þar um eru algeng í fangelsinu.

,,Já þau eru það náttúrulega. Hert eftirlit, þannig að agabrot á síðasta ári voru yfir 180, en þess ber að geta að það er tiltölulega lítill hópur sem á langstærsta hluta þessara agabrota," segir Margrét.

Einelti er viðvarandi vandamál en hefur batnað mikið með árunum og farið minnkandi.

,,Oft á tíðum þessir kynferðisafbrotamenn sem verða fyrir þessu og svo þeir sem geta borið hönd yfir höfuð sér," segir Annþór Kristján Karlsson formaður Afstöðu félags fanga.




Tengdar fréttir

Búið að slökkva eld á Litla-Hrauni

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni, segir að búið sé að slökkva eld sem kom upp í fangaklefa fyrr í kvöld. Slökkviliðsmenn eru nú að reykræsta klefann. Ekki var um mikinn reyk að ræða. Hún segir að hvorki fanga né starfsfólk hafi sakað vegna málsins. Eldsupptök eru að óljós, að sögn Margrétar.

Eldur á Litla-Hrauni

Eldur kom upp í fangaklefa á Litla-Hrauni í kvöld og fóru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á staðinn. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var um minniháttar eld að ræða og er nú verið að reykræsta fangaklefann.

Uppgjör fanga leiddi til íkveikju

Aðstandendur fanga á Litla Hrauni reyndu að fá upplýsingar um fanga fram til þrjú um nóttina að sögn Páls Winkels, fangelsismálastjóra, en hann gagnrýnir fréttaflutning dv.is harðlega. Þar var sagt frá því að kveikt hefði verið eldur í fjórum fangaklefum og að uppreisnástand ríkti á Litla Hrauni. Þetta segir Páll alrangt, einn fangi hafi kveikt í ruslafötu og eldurinn slökktur stuttu síðar. Ástæðan var uppgjör tveggja fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×