Innlent

Búið að slökkva eld á Litla-Hrauni

Margrét Frímannsdóttir.
Margrét Frímannsdóttir.

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni, segir að búið sé að slökkva eld sem kom upp í fangaklefa fyrr í kvöld. Slökkviliðsmenn eru nú að reykræsta klefann. Ekki var um mikinn reyk að ræða. Hún segir að hvorki fanga né starfsfólk hafi sakað vegna málsins. Eldsupptök eru að óljós, að sögn Margrétar.

Á þriðja tug fanga og starfsmanna voru í byggingunni þegar eldurinn kom upp. Margrét segir starfsfólk fangelsisins afar vel þjálfað komi upp aðstæður eins og þessar. „Byrjað var á því að fara með alla út og þá brást slökkvlið og lögregla hratt og örugglega við."

Gagnrýnir frétt dv.is

Margrét gagnrýnir harðlega fréttaflutning fréttavefs DV af málinu og bendir á að fjölmiðlar beri ríka ábyrgð.  Í þessu tilviki gagnvart aðstandendum fanga og starfsmanna fangelsisins.

„Það er ekkert rétt í þessari frétt. Það var ekkert uppreisnarástand," segir Margrét aðspurð um frétt sem birtist á dv.is fyrr í kvöld. Þar var því haldið fram að uppreisnarástand ríkti í fangelsinu eftir að tíu fangar voru læstir inni í klefum sínum í kvöld. Klukkan 21 hafi verið búið að kveikja í þremur eða fjórum fangaklefum.




Tengdar fréttir

Eldur á Litla-Hrauni

Eldur kom upp í fangaklefa á Litla-Hrauni í kvöld og fóru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á staðinn. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var um minniháttar eld að ræða og er nú verið að reykræsta fangaklefann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×