Lífið

Glaðari gaflar út um alla borg

Glaðari gaflar er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar og á að efla götulist.
Mynd/sara Riel,theresa himmer
Glaðari gaflar er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar og á að efla götulist. Mynd/sara Riel,theresa himmer

Reykjavíkurborg stendur nú fyrir hugmyndasamkeppni þar sem einstaklingum gefst kostur á að senda inn hugmyndir að veggverki á húsgafl.

Verkefnið kallast Glaðari gaflar og geta áhugasamir skilað inn hugmyndum að útfærslu á húsgafli sem má vera staðsettur hvar sem er innan borgarmarkanna. Dómnefnd, skipuð listamönnum á borð við Söru Riel, Theresu Himmer og Andra Snæ Magnason, mun svo velja þrjár bestu tillögurnar.

Vinningshafarnir munu hljóta 300.000 krónur í styrk hver, sem varið skal til framkvæmda á verkinu.

„Þetta er óneitanlega jákvætt skref að frekari samvinnu milli listamanna og borgaryfirvalda. Sú stefna sem ríkti hér áður var eiginlega bara yfirgangur af hálfu borgarinnar," segir Sara Riel og vísar hér til fyrri stefnu borgarinnar þar sem uppræta átti götulist.

Listakonan og arkitektinn Theresa Himmer segir að það sé ánægjulegt að borgin ætli að taka þetta listform alvarlega og hlakkar mikið til að skoða allar þær hugmyndir sem munu berast. „Það sem er svo áhugavert við þetta listform er að verkið tengist beint daglegu umhverfi borgarbúa. Fólk fær tækifæri til að upplifa verkin á annan hátt en inni í sýningarrými, það getur skoðað verkið í mismunandi birtu, veðri og árstíma og það breytir sýn áhorfandans á verkið og borgina," segir Theresa.

Þátttakendur verða sjálfir að finna hentuga húsgafla og útvega leyfi hjá húseigendum. Hugmyndaleitin stendur frá 25. júní til 10. ágúst. Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar á facebook-síðu verkefnisins. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.