Íslenski boltinn

Þorgrímur: Þetta var erfitt í allan dag

Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson sem stjórnaði liði Vals í kvöld var ósáttur eftir 3:0 tap gegn Stjörnunni. Valsmenn hafa verið gagnrýndir fyrir að spila hálf varnarsinnaðan bolta í sumar og það virtist vera það sem boðið var uppá í leiknum í kvöld. Þorgrímur sagði að þeir Willum hefðu rætt saman og ákveðið að fara þessa leið en það væri ekki taktík sem myndi vinna leiki.

"Það er frammistaða leikmanna sem skiptir máli en ekki taktík. Ef menn leggja sig ekki fram og ná ekki góðum leik þá skiptir taktíkin ekki máli. Þetta snýst um að leggja sig fram og vera nálægt mönnum, og bara standa sig eins og maður," sagði Þorgrímur skiljanlega nokkuð sár eftir tapið.

Hann sagði þetta síðan hafa keðjuverkandi áhrif því ef menn væru ekki að standa sig varnarlega myndi það smita frá sér. "Ef það er ekki rétt hreyfing á liðinu þá verður þetta erfitt og þetta var erfitt í allan dag. Annað liðið var bara mun sterkara og það er einfalt."

Valsmenn voru í raun heppnir að tapa einungis þrjú núll. "Markvörðurinn okkar varði mjög vel úr dauðafærum og við látum þetta okkur að kenningu verða og mætum tvíefldir til næsta leiks," sagði Þorgrímur en Valur á FH í næsta leik.

"Það verður gífurleg áskorun. Þetta var stórleikur í dag og sá leikur verður það líka. Nú verða menn bara að hysja upp um sig buxurnar og leggja sig betur fram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×