Íslenski boltinn

Heimir: Ánægður með Tryggva

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var vitanlega hæstánægður með sigur sinna manna á Fram í kvöld en þetta var áttundi sigurleikur FH í deildinni í röð.

FH fékk fjölda færa í fyrri hálfleik en nýtti þau ekki - fyrst og fremst vegna góðrar frammistöðu Hannesar Halldórssonar, markvarðar Fram.

„Það var vissulega erfitt að nýta ekki eitthvað af þessum færum og ég hafði smá áhyggjur af því að þolinmæði væri að þverra hjá okkar mönnum. En við ræddum það sérstaklega í hálfleik að við þyrftum einfaldlega að halda áfram."

„Við sýndum góðan karakter og kláruðum leikinn. Við vorum ekki búnir að gleyma leiknum okkar á þessum velli í fyrra þar sem við vorum niðurlægðir og við ætluðum ekki að leyfa því að gerast aftur. En ef maður leggur hart að sér eins og við gerðum í dag þá koma mörkin fyrir rest."

„Ég var einnig mjög ánægður með að halda hreinu í enn einum leiknum. Framarar eru með hættulega sóknarmenn en vörnin stóð sig mjög vel í dag."

Tryggvi Guðmundsson kom inn á sem varamaður í upphafi leiksins og skoraði bæði mörk FH í dag. „Ég er auðvitað mjög ánægður með Tryggva. Hann stóð sig mjög vel, sýndi góðan karakter og skoraði tvö mörk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×