Lífið

Silfurdrengir bjóða 400 manns í indverskan mat í partíi ársins

Logi Geirsson Silfurveislan sem Björgvin Páll og Logi Geirsson blása til verður ein af veislum ársins. Kannski tímanna tákn að það skuli vera íþróttakappar en ekki útrásarvíkingar sem haldi það enda full innistæða fyrir því sem Logi og Björgvin hafa verið að gera.Fréttablaðið/Arnþór
Logi Geirsson Silfurveislan sem Björgvin Páll og Logi Geirsson blása til verður ein af veislum ársins. Kannski tímanna tákn að það skuli vera íþróttakappar en ekki útrásarvíkingar sem haldi það enda full innistæða fyrir því sem Logi og Björgvin hafa verið að gera.Fréttablaðið/Arnþór

Logi Geirsson og Björgvin Páll Gústavsson halda stærsta partí ársins á skemmtistaðnum Oliver á laugardagskvöldið. Fjögur hundruð vinir þeirra hafa fengið boðskort og ekkert verður til sparað þegar hárgelið The Silver verður kynnt.

„Þetta verður svolítið ýkt, svona Hollywood-þema með indverskum mat. Ekki einhverjum pinnamat heldur bara alvöru matur handa fjögur hundruð manns,“ segir Logi Geirsson, silfurdrengur með meiru. Um helgina ætla hann og Björgvin Páll Gústavsson að halda veglegt kynningarpartý á skemmtistaðnum Oliver í miðbæ Reykjavíkur. Og þangað verður stefnt öllum þeim sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar við að ýta úr vör hárgelinu The Silver, sem þeir félagar hafa lagt nótt við nýtan dag við að koma á íslenskan markað. Fyrsti söludagur hefur verið settur þann 1. júlí og ríkir mikil spenna í herbúðum silfurdrengjanna enda er langþráður draumur, sem vaknaði hjá Loga fyrir fimm árum, að verða að veruleika.

Logi er ekki alveg reiðubúinn til að uppljóstra hverju gestir silfurteitisins mega eiga von á. Hann staðfestir hins vegar að mönnum eigi eftir að líða eins og alvöru Hollywood-stjörnum. Því þarna verða lífverðir á hverju strái, rauður dregill og ljósmyndarar til að festa á filmu þennan sögulega viðburð. Logi vildi ekki staðfesta að sverð- og eldgleypir yrði á staðnum né hvaða tónlistarmenn myndu troða upp. Hins vegar er alveg ljóst að það meiri eftirspurn en minni eftir því að hin goðsagnakennda hljómsveit Logi og Lundarnir troði upp í tilefni dagsins.

„Ég vil ekki staðfesta eitt eða neitt, það er hins vegar alveg ljóst að þetta yrði flottur vettvangur fyrir okkur að frumsýna hljómsveitina hér á landi,“ segir Logi, dularfullur. Hins vegar er ljóst að Idol-Lísa mun troða upp þetta kvöld ef marka má fréttatilkynningu sem umboðsmaður hennar, Einar Bárðarson, sendi frá sér. Logi upplýsir að dolla með gelinu verði við hvern vask á Oliver þannig að áhugasamir geta fengið að prófa vöruna. Og kannski verður eitthvað eftir þegar almenningi verður hleypt inn á Oliver á miðnætti.

Björgvin Páll Gústavsson var staddur í Svíþjóð á markmannsnámskeiði þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Hann er væntanlegur til landsins í dag og mun þá hella sér af fullum krafti útí undirbúninginn fyrir silfurteitið.

„Þetta er bara mikið tilhlökkunarefni, loksins er þetta að fara af stað og vonandi á veislan bara eftir að kveikja í fólki.“ Þess má geta að heimasíða gelsins er thesilver.is. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.