Lífið

Hjaltalín eltir kvennalandsliðið til Finnlands

hjaltalín Hljómsveitin Hjaltalín verður í Finnlandi á sama tíma og íslenska kvennalandsliðið. fréttablaðið/gva
hjaltalín Hljómsveitin Hjaltalín verður í Finnlandi á sama tíma og íslenska kvennalandsliðið. fréttablaðið/gva

Hljómsveitin Hjaltalín heldur þrenna tónleika í Finnlandi í lok ágúst á sama tíma og íslenska kvennalandsliðið keppir á EM í fótbolta þar í landi.

„Þetta verður skemmtilegt. Við fáum styrk til að gera þetta frá sendiherranum í Finnlandi [Hannesi Heimissyni] og svo ætlum við að nýta ferðina til að fara um Skandinavíu. Það er nefnilega ekki ókeypis fyrir sjö manns að fljúga fram og til baka,“ segir trommarinn Axel Haraldsson.

Sveitin heldur tónleika í tveimur borgum þar sem landsliðið spilar, í Lahti og Tampere, og verða þeir fyrri haldnir 23. ágúst, kvöldið fyrir fyrsta leikinn hjá stelpunum. Einnig spilar Hjaltalín í höfuðborginni Helskinki.

f

Axel segir meðlimi Hjaltalín ætla að fylgjast vel með Evrópukeppninni í Finnlandi þrátt fyrir að vera ekki miklir áhugamenn um fótbolta.

„Við erum engar bullur en við fylgjumst með ef okkur gefst tækifæri til þess. Við gerum það hiklaust enda eru þær að standa sig miklu betur en strákarnir.“

Hannes Heimisson sendiherra hefur áður reynst Íslendingum haukur í horni erlendis því á handboltalandsleik Íslands og Eistlands á dögunum útvegaði hann markverðinum Hreiðari Guðmundssyni derhúfu þegar sólin skein beint í augunum á honum í miðjum leik.

Hjaltalín spilar næst á upphitunartónleikum á Nasa næsta laugardag fyrir Hróarskelduhátíðina í Danmörku þar sem hún stígur á svið 2. júlí. Axel er vitaskuld spenntur fyrir hátíðinni, þrátt fyrir að Íslendingar verði þar færri en áður vegna lágs gengis krónunnar.

„Þó svo að það verði ekki mikið af Íslendingum verður þetta hrikalega gaman.“

Sin Fang Bous og Gísli Galdur hita upp á Nasa auk þess sem sýnd verður kvikmynd um Hróarskelduhátíðina. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.