Íslenski boltinn

Lúkas Kostic: Vorum ekki lið á vellinum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lúkas Kostic.
Lúkas Kostic. Mynd/Vilhelm

„Það er alltaf svekkjandi að tapa. Ég er samt aðallega svekktur með fyrri hálfleikinn hjá okkur og hvernig við spiluðum þar," sagði Lúkas Kostic, þjálfari Grindavíkur, eftir 2-0 tap gegn KR.

„Við vorum ekki lið á vellinum. Við áttum að gera ákveðna hluti sem við gerðum ekki og það kostaði okkur leikinn," sagði Lúkas sem var sáttari við seinni hálfleikinn.

„Þá stigu menn upp og þá höfðum við í fullu tré við KR-ingana. Við fengum kannski engin færi en við fengum ágætis skotfæri."

Grindvíkingar vildu fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

„Það var ákveðinn vendipunktur í upphafi leiks. Það var bara víti. Stefán Logi viðurkenndi líka eftir leikinn að það hefði verið togað í okkar mann. Dómarinn dæmdi annars vel. KR var samt einfaldlega betra í dag og átti sigurinn skilinn," sagði Lúkas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×