Sport

Leikur líklega síðasta leikinn fyrir KR í Grikklandi

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jónas Guðni Sævarsson.
Jónas Guðni Sævarsson.
„Ég er mjög sáttur við það sem þeir höfðu að bjóða mér," segir Jónas Guðni Sævarsson, fyrirliði KR, sem náði í gær samkomulagi við sænska félagið Halmstad. Liðið er sem stendur um miðja sænsku úrvalsdeildina.

Jónas Guðni ferðast með KR-ingum til Grikklands þar sem þeir leika síðari leik sinn við Larissa í Evrópudeild UEFA á fimmtudag. Það verður líklega hans síðasti leikur í búningi KR, í bili að minnsta kosti.

Vesturbæjarliðið er í góðri stöðu eftir fyrri leikinn sem vannst glæsilega 2-0. Jónas mun ekki ferðast með KR-ingum heim til Íslands eftir leik heldur mun hann fljúga beint frá Grikklandi til Svíþjóðar.

Halmstad hefur fylgst grannt með Jónasi í sumar og alveg ljóst að þeir ætluðu ekki að kaupa köttinn í sekknum. „Þeir vönduðu sig mikið með það. Þeir mættu hingað til Íslands og horfðu á mig í þremur leikjum ásamt því að þeir sáu tvo aðra á upptöku. Svo fór ég náttúrulega yfir til þeirra í tvo daga og spilaði einn leik. Þeir vita því nákvæmlega hvað ég get og ekkert sem ætti að koma þeim á óvart," sagði Jónas Guðni sem kíkti út til Svíþjóðar í byrjun júní og lék einn leik með varaliði félagsins.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er blóðtaka fyrir KR og það er alltaf erfiðara að fara svona á miðju tímabili. En á þessum erfiða tíma þá er gott fyrir félagið að fá smá pening og létta undir rekstrinum."

Varnarjaxlinn Grétar Sigfinnur Sigurðsson er varafyrirliði KR og er líklegast að hann taki við bandinu af Jónasi Guðna.

KR-ingar voru reyndar enn í viðræðum við Halmstad út af Jónasi Guðna þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöld en Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, átti von á því að gengið yrði frá málum fyrr en síðar.

„Það eru ákveðin smáatriði sem þarf að leysa. En stundum er það þannig að sum smáatriði geta orðið dálítið stór. Við erum samt að reyna að klára málið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×