Innlent

Blendin viðbrögð við hugmynd talsmanns neytenda

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Hagmunasamtök heimilanna og Húseigendafélagið skora á stjórnvöld að veita tillögu talsmanns neytenda um að færa niður skuldir með gerðardómi brautargengi. Tillagan fær þó blendin viðbrögð, Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir þetta leiðina til að velta öllum íbúðalánavandanum beinustu leið á herðar skattborgara.

Rétt eins og fyrri tillögur manna og flokka um niðurfærslu skulda sem komið hafa fram á undanförnum mánuðum með mismunandi útfærslum hefur ítarleg tillaga talsmanns neytenda um að fasteignaveðlán verði tekin eignarnámi og lánin færð niður samkvæmt mati lögbundins gerðardóms - ýmist verið hyllt eða fallið í grýttan svörð.

Hagmunasamtök heimilanna og Húseigendafélagið sendu í dag frá sér stuðningsyfirlýsingu við tillöguna og lýsa þar yfir eindregnum stuðningi við hana. Í yfirlýsingunni segir að tillagan sé vönduð og ítarlega rökstudd og í alla staði virðingarvert framtak. Félögin taka heilshugar undir þau sjónarmið og rök sem talsmaðurinn reifar. Í ljósi þeirrar neyðar sem orðin sé og verði alvarlegri með hverjum deginum, skora félögin á stjórnvöld að slá með tillögunni marglofaðri skjaldborg um fjölskyldur og heimilin í landinu. Brýnt sé að bregðast skjótt við. Engan tíma megi missa.

Það er heldur annar tónn í grein sem Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi viðskiptaráðherra skrifar í Fréttablaðið í dag þar sem hann slær hugmyndir talsmanns neytenda út af borðinu. Hann segir talsverðar leifar af viðskiptasnilld enn finnast á Íslandi þrátt fyrir hrunið, því síðustu vikur hafi skotið upp kollinum í fjölmiðlum snöfurmenni sem upplýsi að auðvelt sé að losa fólk undan skuldum án þess að það kosti nokkurn nokkuð. Nýjasta dæmið sé talsmaður neytenda.

Sighvatur segir það ófrávíkjanlega meginreglu eignarnáms að fullar bætur komi ávallt fyrir. Ríkið yrði því að greiða kröfueigendum fullar bætur fyrir eignaupptökuna. Sighvatur segir að sérhver snuddgreindur maður sjái það á augabragði að þetta sé leiðin til þess að velta öllum íbúðalánavanda banka, sparisjóða, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs beinustu leið á herðar skattborgara.

Öll vandamál þessara lánveitenda yrðu leyst. Ríkið fengi reikninginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×