Íslenski boltinn

Þorvaldur: Við vorum líklega ekki að fara að vinna Evróputitil

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram. Mynd/
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Framara var ekki ánægður eftir að lið hans féll úr Evrópudeildinni í kvöld, eftir tap gegn tékkneska liðinu SK Sigma.

"Mér fannst við klaufar í kvöld. Við vorum okkar verstu andstæðingar, sérstaklega með markið sem við fáum á okkur í upphafi síðari hálfleiks, eftir að hafa haft góð tök á leiknum í fyrri hálfleik. Ég var mjög ánægður með að fara inn í hlé og eiga eftir að spila á móti vindinum, þeir réðu ekkert við vindinn í fyrri hálfleik og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera. Ég sá því fram á það að við myndum fá mikið pláss fyrir aftan vörnina í seinni hálfleik. En þegar markið kemur eftir eina mínútu í síðari hálfleik þá breytist leikurinn, við missum dampinn og missum hjartað úr þessu sem var okkar aðall í fyrri hálfleik og í fyrri leiknum. Ég sá samt fram á að við myndum jafna í 1-1 en eftir annað markið þurftum við að skora þrjú mörk og þá var þetta búið," sagði Þorvaldur í samtali við Vísi í leikslok.

Þorvaldur bætti við að þó ævintýrið í Evrópukeppninni væri búið í ár þá hefði þetta verið skemmtilegt ferðalag hjá Frömurum. "Þetta er búið að vera skemmtilegt, að vinna tvo leiki gegn TNS frá Wales og fara svo út til Tékklands og ná jafntefli þar í leik sem við hefðum átt að vinna. Því miður er þetta búið og einhvern tíman kemur að endapunkti í svona ævintýrum. Við vorum líklega ekki á leiðinni að vinna Evróputitilinn þetta árið en til þess að komast aftur í Evrópukeppni á næsta ári þurfum við að standa okkur vel í deild og bikar sem er alveg jafn erfitt. Það er næsta verkefni," bætti Þorvaldur við.

Þorvaldur vildi ekki meina að munurinn á liðinum væri það mikill. "Þeir vinna náttúrulega rimmuna þannig en ef við skoðum einstaklingana þá held ég að munurinn sé ekki það mikill. Ef þeir tala um að þeir séu að byrja tímabilið þá má benda á að við erum að spila þrjá leiki á viku. Við spilum leik á mánudegi, förum út um nóttina til Tékklands og ferðumst þar og spilum á fimmtudegi. Þannig að undir eðlilegum kringumstæðum og með eðlilegri pásu þá værum við ekkert síðri en þeir, ég er alveg sannfærður um það.

"Þó svo að þeir kalli sig atvinnumenn og okkur atvinnumenn, þá erum við alveg jafn miklir atvinnumenn í hugsun, jafnvel þó þeir hafi verið í reitabolta í morgun og mínir menn í bæjarvinnunni," sagði Þorvaldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×