Innlent

Í raun lítið sem útaf stendur

Breki Logason skrifar
Björgvin G. Sigurðsson þingflokksformaður Samfylkingar.
Björgvin G. Sigurðsson þingflokksformaður Samfylkingar.
Björgvin G. Sigurðsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að í raun sé lítið sem standi útaf í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga í Icesavemálinu. Hann segir að aðallega sé gerð athugasemd við einn fyrirvara sem þurfi að skýra betur en hann snýr að því að ríkisábyrgðin sé einungis til ársins 2024. Þingflokkur Samfylkingarinnar ákvað á fundi í kvöld að fela forsætisráðherra fullt umboð til þess að skoða þann fyrirvara betur ásamt fjármálaráðherra. Björgvin segir þingflokkinn hafa verið á því niðurstaðan gæti orðið vel við unandi.

Þetta er algjörlega úr takti við það sem bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Höskuldur Þórhallsson hafa látið hafa eftir sér í kvöld. Þorgerður sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að Bretar og Hollendingar líti svo á að um gagntilboð sé að ræða. Höskuldur sagði eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins að í raun væru Bretar og Hollendingar að hafna fyrirvörunum og ljóst væri að þingið þyrfti að taka málið aftur upp.

Þessu er Björgvin ekki sammála enda segir hann að um óformleg svör hafi verið að ræða og samningaviðræðurnar standi í raun enn yfir. „En eins og þetta lítur út núna þá er þetta vel viðunandi og í raun lítið sem útaf stendur.

„Því fer víðsfjarri að þarna sé verið að hafna fyrirvörunum í heild sinni. Samkvæmt þessu eru þeir að fallast á alla hina efnislegu fyrirvara, fyrir utan þennan tiltekna fyrirvara sem snýr að ríkisábyrgð til ársins 2024. Það verður því að setjast niður og endurskoða það svo þetta sé skýrt. En allir hinir efnislegu og lagalegu fyrirvarar eru ekki í uppnámi, því fer víðsfjarri," segir Björgvin.

Aðspurður hvort hann telji að Alþingi þurfi að taka málið aftur til meðferðar segir Björgvin að það eigi eftir að koma betur í ljós, svo megi þó vel vera.




Tengdar fréttir

Látum ekki hræða okkur að einhverri niðurstöðu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir boltann nú vera í höndunum Ríkisstjórnarinnar og vonar að hún klúðri Icesavemálinu ekki jafn hörmulega og hún gerði á sínum tíma. Þorgerður undrast vinnubrögð Ríkisstjórnarinnar í dag sem hún segir reyna að stýra umræðunni. Hún veltir fyrir sér hvaða hagsmuna Ríkisstjórnin er að gæta í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×