Innlent

Lýðræðishreyfingin vill rafrænt þjóðþing

Ástþór Magnússon segir að ákveðinn lýðræðishalli hafi orðið á Alþingi. Hallann megi leiðrétta með rafrænu þjóðþingi.
Ástþór Magnússon segir að ákveðinn lýðræðishalli hafi orðið á Alþingi. Hallann megi leiðrétta með rafrænu þjóðþingi.

Lýðræðishreyfiingin vill kjósa um sérstök mál á Alþingi í gegnum hraðbanka og þar með virkja rafrænt þjóðþing.

„Við viljum milliliðalaust lýðræði og ef umdeilt mál kemur upp þá geti fólk kosið um það á þingi," útskýrir Ástþór Magnússon einn af talsmönnum lýðræðishreyfingarinnar sem hyggur á framboð í vor. Hreyfingin hefur sótt um listabókstafinn P en hægt er að kjósa frambjóðendur á vefsíðunni austurvollur.is.

„Á Íslandi er það þannig að við fáum kosningar, við kjósum lista þegar við teljum okkur kjósa fólk. En svo gerist það að enginn flokkur nær meirihluta, tveggja flokka samsteypustjórn, jafnvel þriggja flokka stjórn er mynduð og framkvæmdavaldið þá hugsanlega í höndum manna sem hafa kannski nokkur hundruð atkvæði á bak við sig," segir Ástþór sem telur slíkt í raun lýðræðishalla. Hallann megi þó rétta við með beinni þátttöku almennings á þingi. Það geti almenningur með því að kjósa beint í gegnum hraðbanka um þau mál sem það varðar.

„Úr verður rafrænt þjóðþing," segir Ástþór en hugmyndin er nýstárleg en fyrst og fremst gerleg. Hann segir að því fylgi sennilega lítill kostnaður að kjósa í gegnum hraðbanka, fólk fái sent nokkurskonar kosningakort með leyninúmeri, svo kjósi það, í kjölfarið eyðast allar upplýsingar en atkvæðið situr eftir.

Aðspurður um vægi atkvæða almennings gegn þjóðkjörnum fulltrúum, þá telur Ástþór að vægi atkvæða þingmanna ætti í raun að minnka eftir því sem meiri þátttaka almennings er í kosningunum. Það sé þó eitthvað sem þurfi að útfæra.

Ennfremur vill Lýðræðishreyfingin að ráðning dómara og æðstu embættismanna verði staðfest af þjóðþingi Alþingis.

Hann segir þessa hugmynd bæði rökrétta og beint framhald umræðunnar um beinna lýðræði hér á landi. Hann sjái jafnvel fyrir sér að í framtíðinni muni rafrænar kosningar taka við af þeim hefðbundnum, þar sem fólk mætir á kjörstaði.

Spurður um möguleikann á misnotkun á kerfinu með þessum hætti segir Ástþór að hraðbankakerfið sé með því öruggasta sem gengur og gerist. Í sjálfum sér sé líklegra að menn misnoti hið hefðbundna kosningakerfi.

Hægt er að nálgast frekari upplýsinga um rafrænt þjóðþing á heimasíðunni lydveldi.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×