Lífið

Gaddakylfan yfirvofandi

Gaddakylfan – hin opinberu verðlaun Íslands í sínum geira. Geir Jón afhenti í fyrra og mætir aftur í ár.
Gaddakylfan – hin opinberu verðlaun Íslands í sínum geira. Geir Jón afhenti í fyrra og mætir aftur í ár.

Það verður sannkallað glæpsamlegt ástand á Grand Rokki í dag kl. 17 þar sem úrslit í Gaddakylfunni 2009, glæpasagnasamkeppni Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags, verða kunngerð. Hinn háskalegi verðlaunagripur er nú veittur í sjötta sinn og bárust yfir sjötíu sögur í keppnina að þessu sinni.

Kristján Jóhann Jónsson, fulltrúi Glæpafélagsins, var formaður dómnefndarinnar og valdi, ásamt þeim Þórarni Þórarinssyni, aðstoðarritstjóra Mannlífs, og Kristjáni H. Guðmundssyni blaðamanni, þær þrettán sögur sem þóttu bera af. Sögurnar birtast í árlegri kilju sem fylgir tímaritinu Mannlífi, sem kemur út daginn eftir glæpateitið. Kiljan í ár ber heitið 13 krimmar.

Höfundar þriggja bestu sagnanna verða verðlaunaðir sérstaklega og mun Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn afhenda sigurvegaranum Gaddakylfuna, glæsilegan verðlaunagrip úr smiðju listakonunnar Koggu.

Verðlaunaafhending Gaddakylfunnar 2009 markar upphaf ráðstefnu Alþjóðlegu glæpasagnasamtakanna (AIEP) og Norrænu glæpasagnasamtakanna (SKS) þar sem hápunkturinn verður afhending Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Það eru glæpadagar fram undan og komast vonandi allir heilir frá því þinghaldi. Væri raunar efni í glæpasögu ef einhvern vantar hugmynd.

- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.