Erlent

„Gervi“-tungl Norður-Kóreumanna senn í loftið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Leyniþjónustur víða um heim vilja meina að gervitungl Norður-Kóreumanna sé í raun Taepodong-2-eldflaugin sem gæti dregið alla leið til Alaska eða Hawaii.
Leyniþjónustur víða um heim vilja meina að gervitungl Norður-Kóreumanna sé í raun Taepodong-2-eldflaugin sem gæti dregið alla leið til Alaska eða Hawaii. MYND/Topnews

Opinber fréttastofa Norður-Kóreu segir ríkið nú hafa greint Alþjóðasiglingamálastofnuninni frá þeirri áætlun sinni að skjóta upp gervitungli og koma því á sporbaug.

Dagsetningin fylgdi reyndar ekki með þeirri tilkynningu en ríkisfréttastofa Suður-Kóreu þykist hins vegar hafa dregið það upp úr háttsettum en ónefndum norðurkóreskum embættismönnum að skotið muni eiga sér stað á tímabilinu 4. - 8. apríl, vikuna fyrir páska.

Altalað er meðal bandarískra og suðurkóreskra leyniþjónustustofnana að gervitunglið meinta sé sannkallað gervi-tungl og í raun hriplek blekking Norður-Kóreumanna sem ætli sér ekkert annað en að skjóta á loft langdrægu eldflauginni Taepodong-2 í tilraunaskyni en þar fer flaggskip vopnabúrs þeirra.

Taepodong-2 er skeyti sem gæti borið kjarnaodd alla leið til Alaska eða Hawaii og því eðlilega eitthvað sem Bandaríkjamenn og fleiri hafa lítinn áhuga á að Kim Jong-Il og félagar séu að föndra með. Spennan hefur aukist á Kóreuskaganum og Norður-Kóreumenn segjast munu gera allt til að verja alþýðulýðveldi sitt. Páskagervitunglið fellur væntanlega þar undir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×