Enski boltinn

Við erum nánast búnir að kasta frá okkur titlinum

Ryan Babel í leik með Hollendingum
Ryan Babel í leik með Hollendingum Nordic Photos/Getty Images

Hollenski landsliðsmaðurinn Ryan Babel hjá Liverpool segir að leikmenn liðsins geti sjálfum sér um kennt ef þeir sjá á eftir meistaratitlinum í hendur Manchester United í vor.

Liverpool var á tíma í góðri stöðu á toppnum en nú hefur Manchester United sjö stiga forskot í efsta sætinu og á leik til góða eftir mikla rispu undanfarið.

Liverpool hefur hinsvegar á samviskunni jafntefli á heimavelli við lið eins og Fulham, West Ham, Stoke, Hull, Everton og Manchester City - úrslit sem ekki eru líkleg til að skila liði meistaratitlinum í sterkri úrvalsdeildinni.

"Tímabilið er langt og menn gera alltaf einhver mistök, en við erum búnir að gera mörg mistök og erum næstum búnir að kasta frá okkur titlinum," sagði Babel í samtali við Daily Telegraph.

Hann hefur þó ekki gefið upp alla von og segir mikinn anda í Liverpool eftir Real Madrid-slátrunina í Evrópukeppninni í vikunni.

"Sigrar eins og þessi á móti Real gefa okkur mikið sjálfstraust og nú höfum við öðlast nýja trú um að við getum unnið United á laugardaginn. Við getum unnið hvaða leik sem er," sagði Babel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×