Innlent

Ísland með þriðju bestu heilbrigðisþjónustuna í Evrópu

Mynd/Haraldur Jónasson
Ísland hafnaði í þriðja sæti í samanburði gæðaviðmiða í heilbrigðisþjónustu í 33 Evrópuríkjum með 811 stig af 1000 mögulegum. Í úttektinni er gæðaviðmiðum skipt í sex meginsvið sem hafa mestu þýðingu fyrir notendur heilbrigðisþjónustu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í árlegri samburðarrannsókn fyrirtækisins Health Consumer Powerhouse, að fram kemur á vef Landlæknisembættisins. Þar segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi leitað til embættisins og boðið Íslandi þátttöku.

Í fyrsta sæti varð Holland með 875 stig og í öðru sæti varð Danmörk með 819 stig.

„Fram kemur að Ísland kemur mjög vel út í mörgum atriðum; svo sem þáttum sem snúa að réttindum sjúklinga og upplýsingum til þeirra, bið eftir krabbameinsmeðferð, ungbarnadauða, dánartíðni innan 30 daga eftir hjartaáfall og lifun 5 ár eftir krabbamein. Þá stendur íslenska heilbrigðisþjónustan sig einnig mjög vel hvað varðar bólusetningar barna, bið eftir segulómun og fleira," segir á vef Landlæknis.

Auk gagna í eigin gagnagrunnum aflaði Landlæknisembættið gagna víða vegna samburðarrannsóknarinnar, meðal annars á Landspítalanum og í Krabbameinsskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×