Erlent

Spielberg bannar mynd af sér í háskólabæklingi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Spielberg.
Spielberg. MYND/Smh.com.au

Leikstjórinn Steven Spielberg hefur bannað háskóla í Wales að nota mynd af sér til að auglýsa námskeið.

Skólanum barst bréf frá lögfræðingum leikstjórans góðkunna þar sem þess var farið á leit að mynd af honum yrði fjarlægð úr bæklingi sem auglýsir námskeið í skapandi skrifum. Stjórn skólans brást skjótt við og fargaði öllu upplagi bæklingsins, að frátöldu því sem þegar hafði verið dreift.

Talsmaður skólans sagði að þarna hefði verið um fljótfærnisleg vinnubrögð að ræða en með Spielberg hefði verið gerð tilraun til að tengja efni námskeiðsins meðal annars við gerð kvikmyndahandrita. Hann sagði skólann hafa sent Spielberg persónulega bréf og beðið forláts en sjálfur hefði hann ekki grænan grun um hvernig leikstjóranum hefði borist vitneskja um myndina og bæklinginn þvert yfir höf og álfur.

„Ég get þó ekki neitað því að það gleður mig hvað markaðsaðferðir okkar eru langdrægar," sagði talsmaðurinn að skilnaði. Steven Spielberg er með áhrifamestu mönnum í Hollywood og eru eigur hans metnar á tvo milljarða dollara. Nýjasta verkefni hans ku vera kvikmynd um belgísku teiknimyndapersónuna Tinna sem að líkindum sprettur fram á tjaldið á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×