Enski boltinn

Benitez himinlifandi með kaupin á Kyrgiakos

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sotirios Kyrgiakos í leik með gríska landsliðinu.
Sotirios Kyrgiakos í leik með gríska landsliðinu. Mynd/AFP

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, telur sig vera búinn að leysa miðvarðarvandræði liðsins eftir að hann keypti gríska varnarmanninn Sotirios Kyrgiakos frá AEK Aþenu í dag. Kyrgiakos er 30 ára og 192 sm miðvörður og gerir tveggja ára samning við enska liðið. Hann ætti að vera klár í slaginn strax á móti Aston Villa á mánudaginn.

„Hann er grimmur varnarmaður sem hefur líkamlegan styrk og er sterkur í loftinu. Hann býr líka yfir miklum karakter og við vorum að leita af slíkum leikmanni," sagði Benitez við heimasíðu Liverpool. Liverpool borgar gríska liðinu um tvær milljónir punda fyrir Kyrgiakos.

Kyrgiakos kemur líklega strax inn í liðið þar sem að bæði Daninn Daniel Agger og Slóvakinn Martin Skrtel eru meiddir. Kyrgiakos lék sitt eina tímabil með AEK í fyrra en var þar áður í herbúðum Eintracht Frankfurt (2006-08) og Rangers (2005-2006). Hann á að baki 50 landsleiki fyrir Grikki en gat ekki verið með á EM 2004 vegna meiðsla en Grikkir urðu þá einmitt Evrópumeistarar.

„Hann getur líka skorað mörk og verður mikil ógn í föstum leikatriðum. Við höfum verið að fylgjast lengi með honum og allar götur síðan hann spilaði með Rangers," sagði Benitez en hann segir Liverpool hafa miklar upplýsingar um Kyrgiakos.

„Ég hef talað við hann um það sem hann hefur gert og það sem ég vill að geri fyrir okkur. Hann veit hver sitt hlutverk verður og er tilbúinn að fara spila fyrir Liverpool," sagði Benitez.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×