Innlent

Framsóknarforysta í mótsögn við sjálfan sig

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir verðugt verkefni að komast því hversu margar mótsagnir hafi komið fram í málflutningi forystumanna Framsóknarflokksins á síðustu vikum um stuðning flokksins við minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttir.

Sigurður segir í pistli á heimasíðu sinni að það sé athyglisvert að á sama tíma og Framsóknarflokkurinn verji minnihlutastjórn vinstriflokkanna vantrausti, lýsi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, því yfir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með ríkisstjórnina og kalli Samfylkinguna ,,loftbólustjórnmálaflokk."

Botnar ekki í framgöngu framsóknarmanna

,,Engu að síður ver Sigmundur Davíð og flokkur hans minnihlutastjórn, Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, og hefur auk þess lýst því yfir að hann vilji að mynduð verði vinstristjórn að loknum alþingiskosningum með aðild Framsóknarflokksins," segir Sigurður.

Sigurður segist ekki ætla að leggja á sig að reyna að botna í framgöngu framsóknarmanna enda er hún í hans huga allt að því óskiljanleg.

Línur skýrast

Hvað sem öllu þessu líður segir Sigurður ljóst að línurnar í íslenskum stjórnmálum séu að skýrast og kjósendur fái að velja á milli nokkuð skýrra kosta í kosningunum.

,,Annars vegar vinstri-sósíalíska ríkisstjórn sem leggja mun áherslu á umfangsmikil ríkisumsvif, mikla skattheimtu og útgjaldapólitík, og hins vegar ríkisstjórn frjálslyndra og borgaralegra afla," segir Sigurður sem telur að valið ætti ekki að verða erfitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×