Innlent

Forsetabílinn stoppaði stutt í stæði fyrir fatlaða

Bifreið forseta Íslands.
Bifreið forseta Íslands.

Forsetabifreið Ólafs Ragnars Grímssonar stoppaði í stæði fyrir fatlaða í Bankastræti í gær. DV.is greindi frá því að bifreiðinni hafi verið lagt í stæðið allt að sex mínútur en Örnólfur Thorsson, forsetaritari, segir að bifreiðin hafi staðnæmst í stæðinu í 30 til 40 sekúndur.

Örnólfur segir að forsetahjónin hafi borðað á veitingastaðnum Sólon í gær. ,,Bílnum var lagt ofar á Laugavegi og þar beið bílstjórinn. Þegar hann sá að forsetahjónin voru komin út færði hann sig um set til að taka þau upp í bílinn," segir Örnólfur. Forsetahjónin hafi gengið niður að útstillingarglugga í Bankastræti og í framhaldinu stigið upp í bifreiðina.

,,Að mati bílstjórans var hann á þessu horni í einhverjar 30 til 40 sekúndur," segir Örnólfur og bætir við að  bílstjórinn segi að að sé í fjarri lagi að bifreiðinni hafi verið lagt í stæðið í sex mínútur.

,,En það er ekki deilt um það að bílinn staðnæmdist þarna," segir Örnólfur.

Örnólfur segir óheppilegt að forsetabifreiðinni hafi staðnæmst í umræddu stæði. ,,Það er sjálfsagt að fólk sé á varðbergi að stæði fatlaðra séu fyrir þá og séu ekki misnotuð. Hjá embættinu er lögð áhersla á að leggja aldrei í slík stæði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×