Innlent

„Við eða Sjálfstæðisflokkurinn“

Pólarnir í íslenskum stjórnmálum eru Vinstrihreyfingin grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkarnir eru hinir raunverulegu valkostir, að mati Steingríms J. Sigfússonar.

„Sjálfstæðisflokkurinn eða við. Við, flokkurinn sem alls ekki hefur það á samvisku sinni að hafa leitt Sjálfstæðisflokkinn til valda eða haldið honum þar. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn í þröngum skilningi, hann er víðtækt valdanet, samansúrrað bandalag hagsmuna sem hefur á þessum langa valdatíma lagt þéttriðið net sitt í stjórnsýslunni, fjármálaheiminum og viðskiptalífinu," sagði Steingrímur í setningarræðu sjötta landsfundar Vinstri grænna sem hófst á Hilton Reykjavík Nordica í dag.

Steingrímur sagði mikilvægt að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn er eitt og kjósendur hans gegnum tíðina annað. Hafi Sjálfstæðisflokkurinn brugðist þjóðinni, þá hefur hann brugðist kjósendum sínum enn freklegar, að mati Steingríms. „Kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem héldu sig vera að kjósa trausta efnahagsstjórn, sem Sjálfstæðismenn auglýstu sem stærsta velferðarmálið, ætluðust ekki til þess, voru ekki að kjósa það, að efnahag landsins yrði rústað."

VG varaði við hruninu

Steingrímur sagði að Vinstri grænir hafa ekki lofað skattalækkunum og varað við ofvexti fjármálageirans allt frá 2004.

„Á hverju ári síðan, 2006, 2007 og 2008 fluttum við þingsályktunartillögu og síðast frumvarp um aðgerðir í efnahagsmálum, aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, styrkja þyrfti gjaldeyrisforðann og stöðva þá óheillaþróun, verðbólgu, okurvaxta, viðskiptahalla og skuldasöfnunar, sem var að sigla íslensku þjóðarskútunni í kaf."

Steingrímur sagði að Vinstri grænir hafi haft sérstöðu íslenskra stjórnmálaflokka hvað þetta snerti. „Það vorum við sem vorum helstu, og oftast því miður einu, gagnrýnendur þeirrar nýfrjálshyggju- og græðgisvæðingarstefnu sem hér var fylgt."

„Nú vilja ýmsir Lilju kveðið hafa, og ég get ekki neitað því að ég brosi út í annað þegar að þátttakendur í hildarleiknum sjálfum, eða þeir sem áttu að standa þar á verði, tíunda nú hversu gagnrýnir þeir hafa verið á útrásina og hversu oft þeir hafa varað við."

Afkastamikil ríkisstjórn

Steingrímur sagði að Vinstri grænir hafi ekki legið á liði sínu og að núverandi ríkisstjórn hafi verið starfsöm og afkastamikil. Hann sagði ríkisstjórnina hafa komið ótrúlega miklu í verk og nefndi sem dæmi endurskipulagningu Seðlabankans, endanlegt afnmám eftirlaunalaganna og opnað hafi verið fyrir útgreiðsla séreignarsparnaðar.

„Samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka hefur gengið vel og nýtur stuðnings þjóðarinnar. Það leggur góðan grunn að framhaldinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×