Innlent

Frestur til að skila framtali rennur út

Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisskattstjóri.
Frestur til að skila skattaframtali til embættis ríkisskattstjóra rennur út á mánudaginn eftir helgi. Ríkisskattstjóri segir að skilin í ár hafi verið betri en í fyrra. Ríflega 96% landsmanna telja fram á netinu.

,,Skilin hafa verið heldur betri en í fyrra þó það muni ekki miklu. Þetta hefur gengið mjög vel," segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Skattaframtalsgerð einstakinga hófst um seinustu mánaðarmót og er almennur skilafrestur mánudaginn 23. mars. Hægt er að sækja um frest á netinu og er lokadagur framlengds frests fyrir einstaklingsframtöl allt að 1. apríl. Allir fá þó ekki sama frestinn, samkvæmt Skúla.

Skúli segir að framtalsgerðin sé einfaldari í ár. ,,Allar bankaupplýsingar hvað varðar inneignir eru inni. Þeir sem einungis skulda Íbúðalánasjóði eða skulda ekkert og hafa ekki staðið í neinum fastaeignaviðskiptum eða viðskiptum með hlutabréf geta margir hverjir lokið sinni framtalsgerð með því að fara yfir allt og síðan síðan staðfesta."

Þeim fækkar stöðugt sem skila skattframtölum sínum hérlendis á pappír og telja rúmlega 96% einstaklinga fram á netinu á ári hverju, að sögn Skúla. Rafrænu framtalsskilin fara fram í gegnum vefsíðuna skattur.is sem opnuð var fyrir tveimur árum. Skúli segir að hjá embættinu sé til skoðunar að hætta dreifingu á pappírsframtali á næstu tveimur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×