Erlent

Sonur Escobars biðst afsökunar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Pablo Escobar.
Pablo Escobar.

Sonur kókaínbarónsins Pablo Escobar segist harma afbrot föður síns.

Vitað er að síðasta símtal Escobars heitins, áður en lögreglumenn skutu hann til bana á húsþaki í Medellin árið 1993, var til sonar hans, Juan Pablo Escobar, sem flúði til Kólumbíu ári síðar. Ekki hefur mikið farið fyrir syninum og ekki hefur hann haldið áfram í fjölskyldubransanum. Þvert á móti lifir hann einföldu lífi sem arkitekt í Buenos Aires í Argentínu og gegnir nafninu Sebastian Marroquin. Óvænt steig hann þó fram nýlega og bað fjölskyldur fjölmargra fórnarlamba föður síns afsökunar.

Þetta gerir Escobar í heimildamyndinni Syndir föður míns, Sins of my Father, en þar segir hann sögu föður síns og ræðir meðal annars við syni tveggja þekktustu fórnarlamba kókaínbarónsins en það voru dómsmálaráðherrann fyrrverandi, Rodrigo Lara Bonilla, og forsetaframbjóðandinn Luis Carlos Galan. Synirnir segjast þakklátir fyrir afsökunarbeiðnina og loks hafi þeir fundið sátt. Pablo heitinn Escobar stjórnaði einum öflugustu glæpasamtökum veraldar, Medellin-hringnum, og voru auðæfi hans metin á þrjá milljarða dollara af tímaritinu Forbes, upphæð sem ef til vill þykir ekki svimandi nú á dögum en var það sannarlega á sínum tíma.

Medellin-hringurinn bar ábyrgð á þúsundum morða og ekki skorti peningana. Escobar yngri segir til dæmis frá því að faðir hans hafi valið 200 skepnur af sjaldgæfum tegundum, látið handsama þær og flytja á búgarð sinn, Hacienda Napoles.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×