Lífið

Stúlkur sem spá í ský og vindáttir

Stúlkurnar læra svifflug á námskeiði hjá Fisfélagi Reykjavíkur og hafa gaman af.
Stúlkurnar læra svifflug á námskeiði hjá Fisfélagi Reykjavíkur og hafa gaman af. Mynd/Berglind Laxdal

Á Íslensku auglýsingastofunni vinnur hópur af stúlkum sem æfir nú svifflug í frístundum sínum. Hópurinn gengur undir nafninu The High Five, þar sem stúlkurnar sem skipa hann eru fimm talsins. „Samstarfskona okkur, Aníta Björnsdóttir, hefur stundað svifflug í nokkurn tíma og hún var alltaf að dásama þetta og eftir að hafa hlustað á hana tala svona vel um íþróttina ákváðum við að slá til og prófa," segir Berglind Laxdal svifflugsáhugamaður.

Stúlkurnar hafa tekið bóklega kúrsa, meðal annars í veðurfræði, og eru nú að læra það sem kallast að „ground-höndla". „Núna erum við að læra hvernig eigi að koma vængnum á loft, en það getur verið ansi snúið. Næst förum við í svokallað hólahopp, þá svífur maður niður hóla og fær betri tilfinningu fyrir þessu öllu. Planið er svo að vera orðinn fleygur eftir mánuð," segir Berglind.

Námskeiðið sem stúlkurnar hafa sótt síðustu daga er á vegum Fisfélags Reykjavíkur sem býður upp á kennslu í svifflugi á hverju vori. Þeir sem stunda svifflug verða að hafa góðan skilning á veðurfræði og hreyfingu loftstrauma til þess að ná sér á flug. Svifvængurinn sjálfur minnir um margt á fallhlíf og er úr þunnum nælondúk.

Berglind segir svifflugið vera skemmtilega íþrótt og segist sjálf vera orðin forfallin. „Nú gengur maður um og spáir í skýin og vindáttir og athugar veðurspána daglega. Fólk verður fljótt alveg heltekið af íþróttinni og grípur hvert tækifæri sem gefst til þess að fara að fljúga, ætli skrifstofan verði ekki hálftóm í framtíðinni þegar viðrar vel," segir Berglind að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.