Innlent

Boðar hert lög gegn umhverfissóðum

Umhverfisráðuneytið.
Umhverfisráðuneytið.

Vernd náttúru og umhverfis er aukin til mikilla muna með nýju frumvarpi umhverfisráðherra um ábyrgð þess sem veldur umhverfistjóni frá ákveðinni starfsemi, segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Þar segir að frumvarpið sé byggt á mengunarbótareglunni og felur í sér að þeim sem veldur tjóni á umhverfinu ber að bæta það, án tillits til þess hvort rekja megi tjónið til ásetnings eða gáleysis og þess hvort mengunin valdi einkaaðilum tjóni.

Í tilkynningunni segir að öllum verði gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin og er unnt að senda þær inn til og með 17. desember næstkomandi á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is.

Lögunum er ætlað að auka ábyrgð þess sem veldur tjóni á umhverfinu og að koma í veg fyrir mengunarslys.

Með tjóni á umhverfi er átt við tjón á vatni, landi og á vernduðum tegundum, búsvæðum og vistgerðum. Starfsemi sem fellur undir frumvarpið er aðallega mengandi starfsemi, svo sem rekstur verksmiðja, meðhöndlun úrgangs, losun efna í vatn, framleiðsla, flutningur hættulegra og skaðlegra efna og flutningur úrgangs milli landa. Þá fellur framleiðsla, meðferð og notkun á erfðabreyttum lífverum einnig undir frumvarpið, auk vatnstöku og vatnsmiðlunar.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um frumvarpið á heimasíðu umhverfisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×