Innlent

Rafmagnsmál leikskóla víða í ólestri

Í leikskólanum Fram kemur í nýrri skýrslu að Brunamálastofnun hafi víða gert alvarlegar athugasemdir við raflagnir og rafbúnað í leikskólum landsins. Myndin tengist efni greinarinnar ekki að öðru leyti en því að hún er tekin í leikskóla.Fréttablaðið/Pjetur
Í leikskólanum Fram kemur í nýrri skýrslu að Brunamálastofnun hafi víða gert alvarlegar athugasemdir við raflagnir og rafbúnað í leikskólum landsins. Myndin tengist efni greinarinnar ekki að öðru leyti en því að hún er tekin í leikskóla.Fréttablaðið/Pjetur

Raflögnum og rafbúnaði í leikskólum er víða ábótavant samkvæmt úttekt Brunamálastofnunar. Örn Sölvi Halldórsson, sérfræðingur á rafmagnsöryggissviði stofnunarinnar, segir alvarlegustu athugasemdirnar snúa að merkingum í rafmagnstöflum og biluðum tenglum á svæðum þar sem börn eru.

„Við reynum að fylgja eftir athugasemdum sem falla í þriðja flokk, en þær snúa að hlutum sem beinlínis geta verið lífshættulegir og á að vera búið að laga innan mánaðar," segir Örn Sölvi. Fram kemur í úttekt stofnunarinnar að 78 þriðja flokks athugasemdir hafi verið gerðar við rafmagnstöflur, en flestar snúa þær að mögulegri eldhættu. Þá var 41 slík athugasemd gerð við raflagnir og rafbúnað, en þar segir Örn oft um mögulega „snertihættu" að ræða, svo sem þar sem tenglar eru brotnir eða hlífar ekki í lagi.

Úttekt Brunamálastofnunar nær til 156 leikskóla síðustu þrjú ár, en gerð var 1.131 athugasemd við frágang rafmagnstaflna og 687 við raflagnir og búnað. Örn Sölvi segir lagt mjög fast að þeim sem fái skýrsluna í hendur að laga þá hluti sem aflaga hafi farið og víða hafi þegar verið gerðar lagfæringar. „Stór hluti þessara athugasemda er reyndar frá því í vetur og vor."

Gamall og bilaður rafbúnaður og aðgæsluleysi fólks er sagt vera meðal helstu orsaka rafmagnsbruna og því er mikilvægt að rafbúnaður á leikskólum sé ávallt valinn með tilliti til staðsetningar og notkunar. Rafbúnaður á borð við tengla og lampa var víða í ólagi, en það er í skýrslunni sagt áhyggjuefni vegna þess hve marga bruna megi einmitt rekja til þeirra hluta.

Skýrslunni verður dreift til allra leikskóla og til löggiltra rafverktaka. Gerir Örn Sölvi sér von um að hún veki þar með þá athygli sem þurfi til að koma málum tengdum rafmagnsöryggi á leikskólum í lag.

olikr@frettabladid.s




Fleiri fréttir

Sjá meira


×