Enski boltinn

Lét Bent stjórnarformann Tottenham fá það óþvegið á Twitter?

Ómar Þorgeirsson skrifar
Darren Bent.
Darren Bent. Nordic photos/AFP

Framherjinn Darren Bent hjá Tottenham er sagður allt annað en sáttur við framkomu Daniel Levy, stjórnarformanns félagsins, varðandi fyrirhuguð félagsskipti leikmannsins.

Knattspyrnustjórinn Harry Redknapp hefur skilmerkilega komið því til skila að Bent sé ekki inni í framtíðarplönum Tottenham og eftir það virtist fátt benda til annars en að Bent myndi fara til Sunderland á 15 milljónir punda.

En eftir að Hull og Stoke komu fram og sýndu leikmanninum áhuga er Levy nú sagður ekki lengur sætta sig við 15 milljónir punda og er sagður vilja fá nær þeim 16,5 milljónum punda sem Tottenham borgaði fyrir hann á sínum tíma.

Bent vildi fara til Sunderland og er því afar ósáttur með ganga mála og ku hafa látið það í ljós á Twitter-síðu í hans nafni.

„Vill ég fara til Hull? Nei. Vill ég fara til Stoke? Nei. Ég vill fara til Sunderland, svo Levy hættu þessum andskotans fíflagangi," kemur meðal annars fram á Twitter-síðu eignaðri Bent.

Donna Culle, stjórnarmaður hjá Tottenham, staðfesti í samtali við breska fjölmiðla í dag að félagið væri að fá það á hreint hvort að Bent ætti síðuna í raun og veru eða hvort einhver óprúttinn aðili væri að þykjast vera leikmaðurinn áður en félagið myndi aðhafast eitthvað í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×