Innlent

Flóttamaður í felum birtist á Youtube

Breki Logason skrifar

Flóttamaður frá Sierra Leone sem fór í felur eftir að vísa átti honum úr landi sendir ákall til stjórnvalda á Youtube í dag.Vinur mannsins segir hann ekki ætla að koma úr felum fyrr en mál hans verði tekið fyrir. Maðurinn er eftirlýstur.

Henry Turay er flóttamaður frá Sierra Leone sem hefur dvalið hér á landi í um tvo og hálfan mánuð. Hann er nú farinn í felur eftir að vísa átti honum úr landi. Í dag sendi hann frá sér myndbandsupptöku þar sem hann segist ekki ætla að koma úr felum fyrr en hann fái dvalarleyfi, eða að mál hans verði tekið fyrir.

Haukur Hilmarsson er vinur Henrys. Hann segir vin sinn hafa það fínt eftir atvikum, hann óttist hinsvegar að verði hann sendur úr landi, til Þýskalands, þá endi hann nær örugglega í Sierre Leone en þangað hefur hann ekki komið í rúm átta ár.

Þessu er Kristrún Kristinsdóttir skrifstofustjóri í Dómsmálaráðuneytinu ekki sammála. Hún segir að ekki standi til að senda Henry til Sierra Leone heldur til Þýskalands.

Þjóðverjar vilji taka við honum aftur, en það sé þeirra að fjalla um hælisumsóknina. Í dag sé Henry eftirlýstur af lögreglu, og væntanlega verði hann sendur úr landi þegar hann kemst í leitirnar.

Hér má nálgast myndbandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×