Innlent

Óákveðið hvenær þing fer heim

Frá þingi. Enn er óvíst hvenær þingmenn geta horfið úr þingsal og einbeitt sér að kosningabaráttunni.
Frá þingi. Enn er óvíst hvenær þingmenn geta horfið úr þingsal og einbeitt sér að kosningabaráttunni.

 Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær þingi verður frestað þótt ákvörðun hafi verið tekin um það að kosningar skuli fara fram 25. apríl næstkomandi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun lesa úr forsetabréfi og tilkynna um kjördag í dag.

„Þetta felur í sér að búið er að festa kjördag niður og með þessu verður opnað fyrir utankjörstaðakosningu,“ segir hún. „Þetta þýðir hins vegar ekki að verið sé að fresta þingi og þingmenn haldi heim. Ákvörðun um það hefur enn ekki verið tekin.“

Aðspurð hvenær henni þætti æskilegast að þing hætti svo kosningabaráttan gæti formlega hafist segir hún: „Í gegnum tíðina hefur verið allur gangur á því. Minnst hefur liðið einn mánuður.“

Hún segir enn fremur að formenn flokkanna hafi fengið í hendur lista yfir þau mál sem ríkisstjórnin telji mikilvægt að afgreiða áður en þingi er frestað. „Þetta eru mál sem snerta heimilin og fyrirtækin og atriði sem skipta máli við endurreisn fjármálamarkaðarins. Svo er það stjórnarskrármálið sem er reyndar helsta ágreiningsmálið.“

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×