Innlent

Dómsmálaráðherra vill aukafjárveitingu vegna hrunsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragna Árnadóttir kynnti málið í ríkisstjórn á þriðjudaginn.
Ragna Árnadóttir kynnti málið í ríkisstjórn á þriðjudaginn.
Dómsmálaráðherra fer fram á 106 milljóna króna aukafjárveitingu til dómstóla til að mæta auknu álagi vegna bankahrunsins. Ráðherra kynnti málið á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag.

Með tillögunum er gert ráð fyrir því að hægt yrði að fjölga héraðsdómurum og aðstoðarmönnum þeirra en einnig yrðu 16 milljónir notaðar til að takast á við bága fjárhagsstöðu Hæstaréttar. Gert er ráð fyrir að 57 milljónir yrðu notaðir til að greiða launakostnað vegna fjölgunar dómara en um 33 milljónir yrðu nýttar í launakostnað vegna fjölgunar aðstoðarmanna héraðsdómara.

Dómsmálaráðherra leggur til að tekist yrði á við útgjaldaraukninguna með hækkun svokallaðra dómsgjalda, en það eru gjöld sem eru greidd meðal annars fyrir útgáfu stefnu, fyrir þingfestingu í máli, fyrir dómskvaðningu matsmanns og fyrir endurrit og ljósrit af málsskjölum. Í tölvupóstsvari til Vísis tók dómsmálaráðherra það fram að málið væri enn til umfjöllunar í ríkisstjórn og hefði ekki verið afgreitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×