Innlent

Útlendingastofnun ekki að standa sig

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Stefán Eiríksson.
Stefán Eiríksson. Mynd/Pjetur

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, heldur því fram að Útlendingastofnun sé ekki að beita þeim úrræðum sem hún hefur til að sporna gegn komu útlendra glæpamanna sem koma hingað gagngert til að fremja glæpi. Hann telur að þá eigi að senda umsvifalaust úr landi. Stefán var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.

Stefán er sannfærður um að hægt sé að gera meira til að koma í veg fyrir flæði erlendra glæpamanna til landsins. „Ég hef gagnrýnt það að útlendingastofnun sé ekki að beita þeim heimildum sem stofnunin hefur gagnvart glæpamönnum, jafnvel borgurum EES-ríkja, sem að eru hingað komnir eingöngu í þeim tilgangi til að fremja brot. Ég tel að útlendingastofnun geti gert miklu betur og unnið miklu hraðar í þessu málum," sagði lögreglustjórinn.

Útlendingastofnun getur vísað umræddum einstaklingum úr landi, að mati Stefáns. „Þetta á ekki að flækjast neitt fyrir mönnum. Það er ákvörðun sem við tökum sem sjálfstætt og fullvalda ríki hverjir eru óæskilegir hér á þessu svæði."

Stefán benti á að útlendingalöggjöfin hér á landi sé sambærileg við þá í Danmörku og Noregi. Hann tók nýlegt dæmi frá Danmörku af manni sem kom frá ESB-ríki eingöngu til landsins til að fremja þar afbrot og var handtekinn fyrir búðarhnupl. Stefán sagði að danskir dómstólar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að vísa manninum úr landi á þeim forsendum að hann hefði komið til Danmerkur einungis til að brjóta af sér. Þetta vill lögreglustjórinn að sé gert í sambærilegum málum hér sem upp koma hér á landi.

Undanfarið hefur verið rætt um nauðsyn þess að Ísland segi sig frá Schengen-samstarfinu og taka í staðinn upp vegabréfaeftirlit eins og tíðkaðist áður. Félagsmenn í Lögreglufélagi Vestfjarða ályktuðu nýverið til að mynda nýverið um málið. Stefán vill heldur að yfirvöld nýti þær heimildir sem eru nú þegar til staðar.

„Við eigum að byrja á því að fullnýta þær heimildir sem við höfum samkvæmt íslenskum lögum áður en við förum að velta fyrir okkur að segja okkur úr alþjóðasamstarfi," sagði Stefán.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×