Innlent

Blása til mótmælatónleika vegna Ingólfstorgs og Nasa

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar
Kassabílarallý á Ingólfstorgi. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Kassabílarallý á Ingólfstorgi. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.

Áhugahópur um björgun Ingólfstorgs hefur blásið til baráttutónleika sem verða haldnir á torginu á laugardaginn. Þeir héldu blaðamannafund í hádeginu.

Áform um að byggja fimm hæða hótel við Vallarstræti og flytja þess vegna tvö hús yfir strætið og inn á Ingólfstorg og rífa Nasa hafa verið í deiglunni í allmörg ár. Metfjöldi athugasemda barst skipulagi borgarinnar þegar tillagan var auglýst fyrir rösku ári.

Athugasemdirnar voru að einhverju leyti teknar til greina í nýrri deiliskipulagstillögu sem nú er í auglýsingu - stærsta breytingin er líklega að hætt er við bílakjallara undir hótelinu sem hefði þýtt töluverða umferð frá Aðalstræti.

Höfundur tillögunnar, Björn Ólafs arkitekt, sagði í grein í Morgunblaðinu í byrjun vikunnar að hún væri gerð til að styrkja heildarmynd sögulegra húsa við Ingólfstorg og byggja um leið hótel framan við stóra brunagafla sem hefðu lengi blasað þar við. Sú hlið torgsins hafi verið lýti á miðborginni. Gömlu húsin tvö, Hótel Vík og Brynjólfsbúð, sem flytja á yfir Vallarstræti yrðu varðveitt, gerð upp að utan og innan. Með þessu batni ásýnd Ingólfstorgs, umferð minnki og grunnflötur torgsins stækki.

Áhugahópurinn um Björgun Ingólfstorgs er ekki sannfærður, þar sem Björn Brynjólfur Björnsson hafði orð fyrir hópnum.

Hópurinn fékk arkitektastofuna Glámu Kím til að leggja mat sitt á deiliskipulagstillöguna og var skýrsla þeirra kynnt á fundinum.

Frestur til að gera athugasemdir við skipulagið rennur út 11. september. Baráttutónleikarnir verða klukkan tvö á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×