Enski boltinn

Hughes hefur rætt við Robinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City.
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Mark Hughes hefur staðfest að hann hefur rætt við Robinho síðan sá síðarnefndi yfirgaf æfingarbúðir liðsins á Spáni í leyfisleysi.

Robinho flaug fyrirvaralaust til Brasilíu en ástæðuna segir hann vera fjölskyldumál og að hann hafi verið með leyfi frá félaginu til að fara.

Hughes hefur sagt að það sé ekki rétt - Robinho hafi farið í leyfisleysi. Hann sagði einnig að þeir hafi rætt saman síðan hann fór til Brasilíu og að frekari viðræður séu áætlaðar.

„Robby fór án míns leyfis og fannst greinilega að hann þyrfti að takast á við einhver einkamál," sagði Hughes í samtali við enska fjölmiðla. Hann bætti því við að það myndi engum tilgangi þjóna að fá hann aftur til Portúgals áður en ferðinni lyki.

„Hann kemur aftur til Manchester um helgina og mun þá getað byrjað að æfa á nýjan leik. Þegar hann kemur aftur mun ég útskýra mína afstöðu gagnvart málinu og verða ákvarðanir teknar eftir það."

„En hann hringdi í mig og við töluðum saman í smástund," sagði Hughes en bætti við að það hefði verið lítið upp úr því að hafa þar sem að Robinho talaði litla ensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×