Erlent

Eldflaugum skotið á Ísrael frá Líbanon

Tili Arizon, 78 ára gömul ísraelsk kona, flutt af elliheimili eftir árásina.
Tili Arizon, 78 ára gömul ísraelsk kona, flutt af elliheimili eftir árásina. MYND/AP

Eldflaugum var skotið á Ísrael frá Líbanon í dag. Ísraelar hafa þegar svarað árásinni.

Tvær fullorðnar ísraelskar konur særðust þegar eldflaugum var skotið frá Líbanon í dag. Yfirmaður friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna í landinu hvatti til stillingar og sagðist hafa kallað út auka liðsafla til að koma í veg fyrir frekari árásir.

Ísraelar segjast hafa þegar svarað fyrir árásirnar með vörpusprengjum sem beint var á skotstað eldflauganna. Ekki er vitað hvort manntjón varð af þeirra völdum.

Ekki er vitað með vissu hverjir skutu eldflaugunum. Ef það eru Hizbolla samtökin gætu ísraelar verið komnir í stríð á tvennum vígstöðvum. Ísraelar og Hizbolla háðu 34 daga mannskætt stríð í Líbanon árið 2006.

Öllum er mikið í mun að það endurtaki sig ekki. Upplýsingaráðherra Líbanons segir að leiðtogar Hisbolla hafi fullvissað sig um að þeir stæðu ekki á bak við eldflaugaskotin.

Þeir telji sig bundna af vopnahléssáttmálanum sem Sameinuðu þjóðirnar hafði forgöngu um árið 2006.

Fjöldi palestínumanna býr í Líbanon og allt eins er líklegt að þeir hafi skotið flaugunum til að styðja við bræður sína á Gaza ströndinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×