Enski boltinn

Anichebe aftur í náðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Victor Anichebe í leik með Everton gegn Liverpool.
Victor Anichebe í leik með Everton gegn Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, hefur greint frá því að Victor Anichebe eigi nú aftur möguleika á því að spila með liðinu á nýjan leik.

Anichebe er sagður hafa reiðst mjög þegar að Everton hafnaði því að hann yrði lánaður til Hull á lokadegi félagaskiptagluggans. Í kjölfarið ákvað David Moyes að velja hann ekki í leikmannahóp liðsins, þó svo að flestir framherjar liðsins ættu við meiðsli að stríða.

Everton fékk þó Jo að láni frá Manchester City í félagaskiptaglugganum en hann má ekki spila með Everton í bikarkeppninni. Liðið mætir Aston Villa í bikarnum á morgun.

„Ég mun hafa Victor í huga," sagði Moyes og gaf í skyn að þeir væru búnir að grafa stríðsöxina. „Hann er kominn aftur í leikmannahópinn og byrjaður að sinna sinni vinnu aftur. Hann er í góðu formi og á því möguleika á því að spila. En ég get ekkert fullyrt með neinni vissu um hvort hann spili á morgun."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×