Innlent

Telur að Icesave hafi fengið vandaða meðferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í lokaumræðum um Icesave í kvöld að frumvarp um Icesave hefði fengið vandaða málsmeðferð í þinginu. Fyrirvarar hefðu verið settir við ríkisábyrgð á samningnum sem myndu lágmarka áhættuna fyrir Íslendinga.

Jóhanna sagði að Icesave væri hvorki bráðasti skuldavandi Íslendinga né sá sem íþyngdi þjóðinni mest. Þrátt fyrir það hafi samningar staðið yfir í heilt ár. Þá benti Jóhanna á að lagaprófessorarnir Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson hafi gefið álit þess efnis að frumvarpið samrýmist stjórnarskránni.

Loks sagði Jóhanna að IFS greining hefði komist að þeirri niðurstöðu að 10% líkur væru á greiðslufalli íslenska ríkisins miðað þá forsendu að Icesave yrði samþykkt. Hins vegar hefði ekki verið spurt hverjar líkurnar væru á greiðslufalli ef Icesave yrði ekki samþykkt. „Mér er nærri að halda að þá muni líkurnar margfaldast," sagði Jóhanna. Ef Íslendingar skoruðust undan því að greiða Icesave myndu alþjóðlegar stofnanir og lánsmatsfyrirtæki líta svo á að um greiðslufall væri að ræða og meðhöndla Ísland í samræmi við það.




Tengdar fréttir

Vill að þjóðin kjósi um Icesave

Birgitta Jónsdóttir, sagði við lokaumræður um Icesave á þingi í kvöld, að þingmönnum bæri skylda til þess að samþykkja ekki eitthvað sem myndi valda þjóðinni skaða til lengri tíma. Hún sagði að allt tal um sjö ára skjól fyrir skuldbindingunni vegna þess að greiðslur af Icesave skuldbindingunum hæfust ekki fyrr en 2016 væri blekking. Tekjuskattur frá 80 þúsund Íslendingum færu í að greiða vexti.

Segir meirihlutann ekki þora að láta Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði stjórnarmeirihlutinn sæi alla vankanta á þjóðaratkvæðagreiðslum í Icesave málinu vegna þess að allir vissu að málið fengist ekki samþykkt í slíkri atkvæðagreiðslu. Sigmundur sagði jafnframt, í lokaumræðum um Icesave á Alþingi í kvöld, að allt of margir þingmenn hefðu fallið í þá gryfju að verja sitt lið í málinu. „Það er gengið býsna langt í því að verja sitt lið í þessu máli,“ sagði Sigmundur.

Segir íslenska dómstóla gelda með Icesave samningunum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Íslendingum beri hvorki lagaleg né siðferðileg skylda til þess að bera þær byrðar sem Icesave skuldbindingin feli í sér. Íslendingar hafi heldur enga pólitíska hagsmuni af málinu.

Nauðsynlegt að snúa sér að uppbyggingunni framundan

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að enginn hafi haldið öðrum fram en að Icesave málið væri vont og sársaukafullt mál fyrir Íslendinga. Málið myndi hins vegar ekki gleymast og það myndi ekki gufa upp. Hann benti á að spár gerðu ráð fyrir að í lok næsta árs yrði Icesave skuldbindingin 10% af heildarskuldbindingum ríkisins. Gjaldþrot Seðlabanakans væri stærra mál en Icesave skuldbindingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×