Guðmundur Kristjánsson skoraði fyrsta markið strax á áttundu mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Kristni Steindórssyni. Guðmundur stóð einn og óvaldaður í teignum og var í litlum vandræðum með að setja boltann framhjá Kjartani í markinu.
Áhorfendur voru varla sestir þegar Kristinn kom með aðra nákvæmlega eins fyrirgjöf og þá fór boltinn beint á kollinn á Guðmundi Péturssyni og staðan 0:2. Þegar þarna var komið við sögu voru 10 mínútur búnar af leiknum.
Við þessi tvö kjaftshögg virtust valsmenn hálf vankast og voru það næstu 80 mínúturnar eða svo. Blikarnir stjórnuðu leiknum gjörsamlega og miðjan hjá Val var einhversstaðar allt annarsstaðar en inni á vellinum, rétt eins og í mörgum leikjum þeirra í sumar.
Á 27. mínútur átti síðan Finnur Orri Margeirsson fallega stungusendingu inn fyrir vörn valsmanna þar sem Guðmundur Pétursson tók við boltanum og kláraði færið vel, skaut undir Kjartan og staðan orðin 0:3.
Síðasta korterið í fyrri hálfleik var frekar dapurt en Blilkarnir voru mun sterkari.
Atli gerði breytingu í hálfleik á liði Vals. Baldur Bett kom inn fyrir Marel Baldvinsson og fór Baldur inn á miðju með þeim Sigurbirni og Baldri Aðalsteins. Þetta virtist aðeins þétta lið Vals og var leikur þeirra aðeins skárri í seinni hálfleik.
Þeir náðu þó ekki að skapa sér nein afgerandi færi og sigur Breiðabliks nokkuð sanngjarn.
Þar með fara Blikarnir upp fyrir Valsmenn í deildinni en Breiðablik á Stjörnuna í næsta leik. Valsmenn fara hinsvegar til Vestmannaeyja þar sem þeir freistast til þess að næla sér í einhver stig.
Leiknum var lýst beint á Boltavaktinn en hægt er að sjá lýsinguna með því að smella hér: Valur - Breiðablik.