Innlent

Brotlending ríkisstjórnarinnar ef rétt reynist

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson segir það í raun hlægilegt að láta sér detta í hug að Alþingi muni samþykkja það að Samfylkingin fái umboð til þess að fara til Brussel og semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í Morgunblaðinu í morgun er því haldið fram að samkomulag ríkisstjórnarinnar í evrópumálum sé að Alþingi verði falið að ákveða endanlega hvort hafnar verði aðildarviðræður við ESB eða ekki.

„Þetta er auðvitað engin lending, heldur brotlending ef niðurstaða flokkanna um þessi mál er svona," segir Bjarni aðspurður um fullyrðingar Morgunblaðsins.

„Þetta hljómar eins Steingrímur J. sé að veita Jóhönnu Sigurðardóttur leyfi til þess að leggja fram þingsályktunartillögu um að Samfylkingin fái leyfi og sú þingsályktunartillaga hefur enga þýðingu umfram aðrar tillögur og er í sjálfu sér afskaplega máttlítið plagg," segir Bjarni.

Bjarni segir með ólíkindum að ríkisstjórnin ætli að hreyfa sig í jafn mikilvægu máli án þess að vera sammála. Í máli sem snertir fullveldi Íslands, yfirráð yfir auðlindunum, matvælaöryggi, peningamálastefnuna og aðra slíka hluti.

„Og þar sem þeir virðast vera ósammála þá er með ólíkindum að þeir ætli að leggja af stað í einhverja meðferð án þess að það sé gerð minnsta tilraun til þess að eiga um slíkt samráð milli þingflokkanna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn gerir það, því þetta var eins í stjórnarskrármálinu."

Bjarni segir augljóst að þingið muni ekki veita Samfylkingunni opið umboð til þess að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

„Það má vel vera að menn í flokknum hafi ólíkar skoðanir en það eru allir sammála um að það sé óskynsamlegt að veita umboð sem gengur út á það að Samfylkingin fari til Brussel og semji um aðild Íslands að Evrópusambandinu."




Tengdar fréttir

Kemur ekki til greina að Samfylkingin annist ein aðildarviðræðurnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir ekki koma til greina að fela Samfylkingunni einni umboð til að fara í viðræður um aðild Íslands að Evrópusamgandinu. Hann segir einnig að ef rétt reynist, og ríkisstjórnin ákveði að fela þinginu að taka ákvörðun um hvort hefja eigi viðræður, sé það heldur rýr uppskera eftir tíu daga vinnu.

Birkir Jón: Lofar ekki góðu ef ríkisstjórnin er klofin í ESB máli

Birkir Jón Jónsson. varaformaður Framsóknarflokksins segir það ekki lofa góðu ef ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um Evrópumálin og ætli sér þess í stað að leggja spurninguna um hvort hefja eigi aðildarviðræður í dóm Alþingis eins og Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir. Hann segist hlynntur aðildarviðræðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×