Enski boltinn

McManaman: Liverpool er besta liðið

Nordic Photos/Getty Images

Steve McManaman segir að Liverpool sé besta lið Englands um þessar mundir en það þýði ekki endilega að liðið hampi meistaratitlinum.

Liverpool er í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Manchester United, og toppliðið á enn leik til góða. McManaman segir Liverpool eiga góða möguleika á titlinum á næsta ári ef það verður ekki meistari í sumar.

"Liverpool er langbesta liðið á Englandi í augnablikinu. Liðið er sannarlega að spila bestu knattspyrnuna. Liverpool er kannski ekki að ná bestu úrslitunum, en það er besta liðið í dag," sagði McManaman í samtali við Liverpool Echo.

"Venjulega segja menn að Manchester United sé það lið sem er að spila best á Englandi, en svo er ekki - það er Liverpool. Þeir hafa bara verið að fá á sig of mörg mörk undanfarið. Ég tippaði á Liverpool í að vinna deildina, en því miður féllu hlutirnir ekki með þeim. Ég hugsa að liðið eigi eftir að keppa um titilinn á næsta ári ef það heldur sama mannskap," sagði McManaman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×