Innlent

Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur fjölgaði um 40%

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hefur tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur fjölgað um 40%. Samtals hafa nú borist 1107 tilkynningar á fyrstu þremur mánuðum ársins en þær voru 775 á fyrstu þremur mánuðum síðasta ár.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ljóst sé að hluta þessarar fjölgunar megi rekja til mjög aukinnar vitundar íbúa og starfsmanna borgarinnar um nauðsyn þess að vera vakandi fyrir líðan barna við erfiðar aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar. Einnig sé ljóst að erfiðar efnahagsaðstæður birtist í fjölgun hegðunarvandamála hjá börnum, og því miður einnig í fjölgun erfiðari mála og meiri vanda hjá foreldrum.

Þá segir að það sé reynsla annarra landa sem glíma við kreppu að barnaverndarmálum fjölgi og fjölgun tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur á fyrstu þremur mánuðum ársins sé vísbending um að svo geti einnig orðið hér. Það sé þó mikilvægt að hafa í huga að margar tilkynningar séu vegna erfiðleika sem auðvelt reynist að leysa með aðstoð og viðeigandi stuðningi, og í ákveðnum tilfellum er tilkynningum lokað með bréfi til foreldra. Séu tilkynningar alvarlegar fari strax í gang ákveðið ferli sem miði að því að tryggja öryggi barna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×