Innlent

Samið um hvern málaflokk fyrir sig

Formenn Samfylkingar og Vinstri grænna höfðu bæði varaformenn sína og aðstoðarmenn með sér í áframhaldandi viðræður um nýja ríkisstjórn.
Fréttablaðið/Anton
Formenn Samfylkingar og Vinstri grænna höfðu bæði varaformenn sína og aðstoðarmenn með sér í áframhaldandi viðræður um nýja ríkisstjórn. Fréttablaðið/Anton

„Við erum að ná samkomulagi innan hvers málaflokks fyrir sig," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, eftir fund síðdegis með Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni Samfylkingarinnar.

Fundinn, sem fram fór í Alþingishúsinu, sátu einnig varaformenn flokkanna og aðstoðarmenn formannanna.

Jóhanna sagði að fyrst og fremst þyrfti að ná niðurstöðu varðandi Evrópusambandið. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu þó tímann fyrir sér enda með meirihluta Alþingis á bak við sig.

Aðspurður um mismunandi áherslur flokkanna á Evrópumál annars vegar og umhverfismál hins vegar sagðist Steingrímur það vitað. „Við þurfum einhvers staðar að mætast í þessum málum.

Það er bara augljóst og það er bara unnið í samræmi við það," svaraði Steingrímur.

„Hér er það svo að við leggjum líka áherslu á umhverfismálin. Þú mátt ekki gleyma því," minnti Jóhanna þá fréttamann á og Steingrímur hló við.

Auk þess sem viðræðuhópur flokkanna tveggja um Evrópumál var skipaður á mánudag tilnefndu flokkarnir í gær tvo fulltrúa hvor í nefnd sem ræða á stjórnkerfisbreytingar. -gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×