Innlent

Vinna á Lyngdalsheiði stöðvast

Gerð nýs vegar um Lyngdalsheiði liggur niðri eftir að Lýsing hirti vinnuvélarnar af verktakanum, Klæðningu. Lagning hitaveituæðar frá Hellisheiðarvirkjun hefur stöðvast af sömu ástæðu. Þá hefur Klæðning fallið frá tilboði sínu í Raufarhafnarveg, en fyrirtækið átti lægsta boð í verkið.

Klæðning hóf gerð nýs fimmtán kílómetra vegar yfir Lyngdalsheiði milli Þingvalla og Laugarvatns síðastliðið haust og áformaði að ljúka verkinu í sumar. Vinnan hefur nú stöðvast.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að Lýsing, sem fjármagnaði tækin, hafi stöðvað notkun þeirra og verkið sé stopp. Á verkfundi í morgun með verktakanum hafi hann óskað eftir því að einhverja daga til að skoða möguleika á því að fá að halda verkinu áfram með því að fá leigð tæki annarsstaðar frá. Vegagerðin muni veita þeim þá heimild í einhvern tíma. Síðan verði að taka á því þegar þar að kemur hvort þeir geti haldið verkinu áfram eða hvort bregðast þurfi öðruvísi við.

Klæðning vann einnig að lagningu hitaveituæðar frá Hellisheiðarvirkjun til borgarinnar fyrir á annan milljarð króna og stöðvaðist það verk á föstudag af sömu ástæðu. Fundur er áformaður á morgun milli fulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur og Klæðningar um hvernig leyst verður úr því máli. Klæðning átti fyrir tveimur vikum lægsta tilboð í gerð nýs vegar til Raufarhafnar en hefur nú fallið frá boðinu. Það var upp á 250 milljónir, sem var aðeins 56 prósent af kostnaðaráætlun.

Hvort Vegagerðin hafi áhyggjur af þessari þróun mála, ekki bara gagnvart þessum verktaka heldur öðrum, kveðst vegamálastjóri almennt hafa áhyggjur. Menn viti að staða fyrirtækja, ekki síst í mannvirkjagerð, til dæmis jarðvinnu, sé mjög slæm víða.

KNH verktakar á Ísafirði áttu næstlægsta boð í Raufarhafnarveg, um 60 prósent af kostnaðaráætlun. Þeir leggja nú Suðurstrandarveg og munu á morgun undirrita verksamning um Vopnafjarðarveg. Vegagerðarmenn telja óvíst að þeir ráði einnig við Raufarhafnarveg á sama tíma og hafa sett sig í samband við fjóra verktaka sem næstir komu í röðinni, um að taka að sér verkið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×