Enski boltinn

Ferguson: Maldini í uppáhaldi

Paolo Maldini er í miklu uppáhaldi hjá Alex Ferguson
Paolo Maldini er í miklu uppáhaldi hjá Alex Ferguson Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur upplifað tímana tvenna í Meistaradeildinni. Skotinn rifjaði upp það eftirminnilegasta í viðtali við breska blaðið Independent.

Hann segir 7-1 sigur sinna manna á Roma í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar leiktíðina 2006-07 vera eftirminnilegustu frammistöðu United í keppninni.

"Þetta var besti leikurinn okkar og metsigur á þessu stigi í keppninni. Við vorum að spila við sterkt ítalskt lið sem hafði unnið okkur 2-1 í fyrri leiknum. Fyrri hálfleikurinn var sannkallaður draumur og við spiluðum þá sundur og saman. Þessi leikur stendur sannarlega upp úr, en það sama má segja um 3-3 jafnteflið okkar við Barcelona á útivelli. Það var leikur sem hefði með öllu átt að enda með 20-20 jafntefli á miðað við sóknarleik beggja liða," sagði Ferguson.

Hann var spurður að því hvaða leikmenn hefðu heillað hann mest úr röðum mótherjanna. "Af leikmönnum í dag kemur Leo Messi fyrst upp í hugann og þó Kaka hafi aldrei beinlínis gert mig orðlausan, hefur hann verið góður. Zinedine Zidane var snillingur, en Paolo Maldini hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hann er mikill íþróttamaður og keppnismaður - og þó hann hafi aldrei verið hæfileikaríkasti knattspyrnumaðurinn, hefur hann alltaf farið fyrir sigursælu liði AC Milan og notið gríðarlegrar velgengni," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×