Erlent

Bretar horfa til himins á morgun

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
„Blóðgan mána bar við tind“ segir í þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Friðþjófssögu eftir Esaias Tegnér. Ekki er hann þó blóðugur þessi og vonandi viðrar vel til stjörnuskoðunar í Bretlandi á morgun.
„Blóðgan mána bar við tind“ segir í þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Friðþjófssögu eftir Esaias Tegnér. Ekki er hann þó blóðugur þessi og vonandi viðrar vel til stjörnuskoðunar í Bretlandi á morgun. MYND/Reuters

Tunglið tunglið taktu mig, segir í gömlu barnagælunni og þau orð munu heldur betur eiga við í Bretlandi á morgun þegar þúsundum manna gefst kostur á að horfa á þennan fylgifisk okkar jarðarbúa gegnum stjörnusjónauka.

Árið 2009 er alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar og uppákoman í Bretlandi er hluti af dagskrá í tilefni þess. Í ár verða einmitt liðin 400 ár síðan ítalski raunvísinda- og uppfinningamaðurinn Galíleó Galílei leit tunglið í fyrsta sinn gegnum stjörnukíki sem hann smíðaði.

Um 130 tunglskoðunaruppákomur verða haldnar um allt Bretland á morgun enda fullt tungl og eftir töluvert miklu að slægjast ef veður leyfir. Alls taka 140 þjóðlönd þátt í einhvers konar hátíðarhöldum vegna stjörnufræðiársins og eru stjörnufræðingar heimsins önnum kafnir við að skipuleggja fyrirlestrahald og alls konar fræðslustarf til handa tunglsjúkum stjörnuglópum um víða veröld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×