Innlent

Landsvirkjun braut lög með greiðslum

Ingimar Karl Helgason. skrifar
Landsvirkjun.
Landsvirkjun.

Landsvirkjun braut lög með því að greiða fyrir skipulagsvinnu Flóahrepps, vegna virkjana í Neðri-Þjórsá. Þetta kemur fram í úrskurði samgönguráðuneytisins. Samkvæmt úrskurðinum er engin heimild í lögum fyrir því að Landsvirkjun greiði sveitarfélögum fyrir vinnu við aðalskipulag.

Fréttastofa upplýsti í vikunni um milljóna greiðslur frá Landsvirkjun, til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og hundruð þúsunda sem sveitarstjórnarmenn fengu, vegna ýmissa funda.

Málið tengist fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í Neðri Þjórsá. Tvær eiga að vera í Skeiða- og gnúpverjahreppi; ein í Flóahreppi. Fram hefur komið að Flóahreppur fékk háar greiðslur frá Landsvirkjun, meðal annars var borgað fyrir skipulagsvinnu; samkvæmt samningi milli hreppsins og Landsvirkjunar.

Það stenst hins vegar ekki lög.

Samgönguráðuneytið, sem fer með sveitarstjórnarmál, segir í nýjum úrskurði, að sú grein samkomulags hreppsins og Landsvirkjunar, sem fjallar um greiðslur Landsvirkjunar fyrir skipulagsvinnu sé ólögmæt.

Í samningi Landsvirkjunar og Skeiða og Gnúpverjahrepps, sem fréttastofa hefur undir höndum, er svipað ákvæði um að Landsvirkjun borgi skipulag þar.

Þá segir jafnframt í úrskurði ráðuneytisins að ekki sé gert ráð fyrir því í lögum að hægt sé að semja um það fyrirfram að tiltekinn aðili beri allan kostnað af deiliskipulagi. Þá sé það ótvírætt að í skipulags- og byggingalögum sé engin heimild til þess að aðrir en sveitarfélag beri kostnað vegna aðalskipulags.

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar sagði í fréttum í gær að þetta væri túlkunaratriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×