Innlent

Stjórnvöld verða að grípa strax til aðgerða

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Gunnar kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Mynd/ stjórnarráðsvefurinn.
Gunnar kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Mynd/ stjórnarráðsvefurinn.
Stjórnvöld verða að horfast í augu við slæma skuldastöðu og grípa til aðgerða strax, segir Gunnar Tómasson hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í aldarfjórðung. Hann lýsir vonbrigðum með afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og segir að AGS hafi brugðist Íslendingum í endurreisninni og gengið erinda Breta og Hollendinga.

Seðlabankinn birti í gær stöðuna á skuldum íslenska þjóðarbúsins við útlönd - eins og hún var í lok júní, og hafði þá frestað einu sinni að birta tölurnar. Í heildina eru erlendar skuldir Íslands vel yfir fjórtán þúsund milljarðar, en þá eru meðtaldar erlendar skuldir gömlu bankanna. Að þeim frádregnum skuldaði íslenska ríkið, íslensk fyrirtæki og heimili 3323 milljarða króna í erlendri mynt, sem jafngildir röskum tíu milljónum króna á hvert mannsbarn. Miðað við áætlaða landsframleiðslu erum við því að nálgast skuggalega þau þolmörk sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði eftir bankhrunið að Ísland gæti staðið undir. Til að setja þessa tölu í samhengi má benda á að Icesavesamningurinn umdeildi hljóðar upp á allt að 750 milljarða, og er því vel innan við fjórðungur af erlendum skuldum ríkis og þjóðar.

Gunnar Tómasson hagfræðingur sagði í fréttum okkar í gær að við stefndum í greiðsluþrot. Hann segir að forsendur aðgerðaáætlunar AGS og íslenska ríkisins sé gjörbreytt. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hafi ekki búist við því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn myndi ganga erinda Breta og Hollendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×